Fjöldasamkomum hefur verið frestað vegna mislingasmits

Framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands segir íbúa á Norðausturlandi hafa sýnt ábyrgð með að draga úr fjöldasamkomum í kjölfar þess að mislingasmit greindist á svæðinu fyrir rúmri viku. Ný tilfelli hafa ekki komið upp.

Laugardaginn 20. apríl var staðfest opinberlega að mislingasmit hefði komið upp á Þórshöfn. Um leið var upplýst að viðkomandi hefði sótt fjölmenningarhátíð á Vopnafirði sunnudaginn 14. apríl. Hann mun hafa veikst nokkrum dögum síðar en fullfrískir einstaklingar geta smitað í þrjá daga áður en þeir veikjast.

Meðgöngutími mislinga getur verið allt að þrjár vikur. Því þarf að halda út þessa viku til að öll hætta sé liðin hjá, en hún fer minnkandi með hverjum deginum sem líður.

Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA, segir að þegar vitað sé um smit í samfélaginu sé viðbragðið snarpara þannig fleiri einstaklingar séu skoðaðir en færri til öryggis. Hins vegar hafi síðustu daga enginn sérstakur grunur vaknað um smit og ekkert nýtt tilfelli greinst.

Fólk tekið upplýstar ákvarðanir


Austurfrétt hefur heimildir fyrir að fjöldasamkomum á svæðinu hafi verið frestað vegna aðstæðnanna. Engar samkomutakmarkanir eru í gildi en heilbrigðisyfirvöld hafa bent á hættuna á útbreiðslu af fjölmennum viðburðum.

„Ég veit að viðburðum hefur verið frestað eða aflýst. Mér þykir það afskaplega ábyrgt. Ef við sleppum í gegnum þetta tímabil þá er ljóst að allt slíkt hefur skipt máli. Það er ekkert almannavarnastig í gangi en við veitum upplýsingar þannig fólk geti tekið upplýstar og góðar ákvarðanir með hag sinn og samborgaranna í huga.“

Enginn straumur í bólusetningar


Út þessa viku gefst íbúum á Vopnafirði og Bakkafirði færi á að fá bólusetningu á Vopnafirði. Ákallinu er beint til íbúa sem eru fæddir 1975-1987 og eru ekki fullbólusettir. Upplýsingar um það er hægt að sjá á bólusetningarskírteinum og Heilsuvera.is.

Full vörn gegn mislingum fæst ekki fyrr en eftir tvær bólusetningar. Einstaklingar sem ekki hafa fengið fulla bólusetningu geta pantað hana í síma 470-3001 milli klukkan 11-13. Bólusetningin er ókeypis.

Pétur segir að boðið hafi verið nýtt en ekki af neinum fjölda enda má búast við að um 90% Íslendinga séu fullbólusettir eða hafi fengið mislinga, en einstaklingur fær þá aðeins einu sinni á ævinni. „Sem betur fer er enginn straumur og það er til marks um að samfélagið er er vel bólusett.“

Mislingar byrja líkt og hefðbundin flensa, með hita, slappleika og slíku en eftir 3-4 koma fram rauðir flekkir sem eru helsta einkenni sjúkdómsins. Einstaklingar með hvers konar einkenni eru hvattir til að halda sig til hlés. Hægt er að hafa samband við lækni í síma 1700 ef þörf er á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.