Heilar tólf lóðir til úthlutunar á Djúpavogi

Skipulagsfulltrúi Múlaþings vinnur nú að því að auglýsa formlega bæði íbúða- og atvinnulóðir á Djúpavogi og það einar tólf talsins. Ár og dagur er síðan slíkur fjöldi lóða var auglýstur á staðnum.

Nýtt deiliskipulag fyrir efsta hluta svokallaðs Borgarlands og athafna- og hafnarsvæðinu við Innri Gleðivík var unnið hjá sveitarfélaginu Múlaþingi á síðasta ári og lauk þeirri vinnu í byrjun ársins. Nýverið samþykkti umhverfis- og framkvæmdaráð sveitarfélagsins að hefja úthlutun lóðanna samkvæmt þartilgerðum reglum Múlaþings.

Um er að ræða alls sex íbúðalóðir í Borgarlandi númer 23, 25, 27, 29, 48 og 50 og hins vegar sami fjöldi lóða í Innri Gleðivík sem er athafnasvæði. Þar nú lausar lóðir í Víkurlandi 8, 9A, 10A, 12 og 14.

Að sögn Eiðs Ragnarssonar, fulltrúa sveitarstjóra á Djúpavogi, mun þetta vera fyrsta sinn í langan tíma sem svo margar lóðir koma til úthlutunar í einu.

„Mig rekur ekki minni til að fleiri lóðir hafi komið til úthlutunar hér á þessu svæði í einu og sama vetfangi. Það hefur verið úthlutað stöku lóðum hér í þorpinu síðustu árin en þar yfirleitt um að ræða eina og eina lóð.“

Lengi hefur verið talað um lóðaskort á Djúpavogi fyrir áhugasama og aðspurður segir Eiður að vissulega hafi hann vitneskju um að allnokkrir aðilar hafi forvitnast um lóðir. Þar bæði um íbúðalóðir að ræða og eins hafi fyrirtæki sýnt atvinnulóðum í byggðalaginu áhuga síðustu árin.

„Þannig að sjálfur er ég bjartsýnn á að menn sýni þessum lóðum áhuga og sendi okkur fyrirspurnir vegna þeirra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.