Ágúst Lúðvíksson: Héraðið mitt er mitt „Heimat“

Ágúst Lúðvíksson, doktor í eðlisfræði, hefur búið í Karlsruhe í Þýskalandi í um 40 ár en er uppalinn á Austfjörðum og Fljótsdalshéraði. Hann sækir enn reglulega austur og segir Héraðið eitt veita þá tilfinningu að hann sé kominn heim.

Ágúst er fæddur á Eskifirði árið 1959, næst yngstur sex barna Lúðvíks Ingvarssonar sýslumanns og Aðalbjargar Karlsdóttur. Þegar Ágúst fæddist var Lúðvík nýbúinn að segja upp sýslumannsembættinu. Fjölskyldan flutti yfir á Fáskrúðsfjörð þar sem faðir hans rak fiskvinnsluna Fram í um fimm ár.

Þá var komið að tíðum flutningum, fyrst í Eiða, síðan í Egilsstaði, næst Eyjólfsstaði á Völlum, þaðan yfir í Fellabæ og svo aftur yfir í Egilsstaði. Þar var síðasti viðkomustaðurinn Selás 4. Fjölskyldan flutti suður árið 1972 en hélt áfram að koma austur á sumrin og byggði hús við götuna Hjarðarhlíð.

„Þegar við fluttum fyrst á hæðina þá voru þar bara nokkur hálfköruð hús, aðeins eitt var fullbyggt og annað fokhelt. Í næstu götu var fjölskylda, þrjú börn og foreldrar, að byggja sér hús en þau bjuggu á meðan í öðru húsi, sem fyrir strákpolla eins og mig var venjulegt hús með stofu, eldhúsi og svefnherbergi. Þegar þau fluttu í alvöru komst ég að því að þau höfðu búið í bílskúr.

Fólk bjó í hálfbyggðum húsum árum saman, hélt áfram að byggja eftir efnum og aðstæðum. Einhvern tíma urðu húsin fullbyggð en þau voru oft lengi í byggingu.

Fólk bjó þrengra og sætti sig við það. Ég man að á Fáskrúðsfirði bjuggu við hliðina á okkur systkini sem voru nokkuð við aldur. Ég býst við að húsið þeirra hafi ekki verið meira en 40 fermetrar að grunnfleti en á tveimur hæðum. Ég hef séð þetta hús eftir að ég varð fullorðinn og velti fyrir mér hvernig fólk gat búið í því, það var varla hægt að standa uppréttur í því.“

Skólinn passlega nógu stuttur til að drepa ekki námsþorstann


Ágúst bjó líka þröngt, segist hafa deilt herbergi með bróður sínum Ara fram undir tvítugt. Ari er árinu eldri og Ágúst segir þá hafa alist upp nánast sem tvíbura. „Við vorum í eins fötum, sama bekk og þegar við vorum litlir þá áttum við afmæli tvisvar á ári, hvor með öðrum.“

Bræðurnir voru í heimavist í fjögur ár í Hallormsstaðaskóla, sem þá var nýstofnaður. Ágúst segir það hafa gefið sér tækifæri á að kynnast krökkum úr sveitunum á upp-Héraði. Hann rifjar upp skólagönguna þar sem byrjaði í þriðja bekk, þá áttu nemendur að vera orðnir læsir. Þeir voru síðan tvær vikur í skólanum og tvær vikur heima.

„Þrátt fyrir að við höfum ekki setið lengi í skóla, eða jafnvel vegna þess, þá slokknaði aldrei námsþorstinn. Ég er ekki viss um að löng skólaseta sé vel til þess fallin að fræða börnin, kannski kæfir hún frekar áhugann,“ segir Ágúst.

Skoðaði landið út frá raflínunum


Eins og aðrir unglingar á þessum tíma var Ágúst byrjaður að vinna um fermingu. Hann segist flest sumur hafa verið aðstoðarmaður Sveinbjarnar Guðmundssonar, hjá Rafveitum ríkisins við að líta eftir rafmagnslínum á Norður- og Austurlandi. Ágúst rifjar upp að hafa fyrst kynnst Sveinbirni þegar hann bjó á Fáskrúðsfirði þar sem Sveinbjörn var rafveitustjóri. Sveinbjörn bjó nærri fjölskyldunni þar og varð síðan einnig nágranni hennar á Egilsstöðum.

Með Sveinbirni fékk ég tækifæri til að skoða landið. Það var nýbúið að leggja mikið af þessum eins vírs háspennulínum, sem nú er verið að plægja í jörðu og það féll oft í minn hlut að ganga meðfram þessum línum og skoða hvort staurarnir stæðu réttir eða bindingar og annað væri í lagi. Ég þrammaði með kíki um hálsinn oft langar leiðir.

Ég hef með hléum gengið langleiðina frá Lónsheiði vestur í Skagafjörð og út á annes meðfram línunum. Línurnar lágu alltaf heim að bæjum og þess vegna kynntist ég á ferðalaginu mörgum afskaplega geðgóðum og kurteisum hundum sem tóku á móti manni. Húsbændur þeirra voru ekki alltaf jafn geðgóðir eða prúðir!

Stundum var það ekki ég sem gekk heldur Sveinbjörn. Þá þurfti ég að ferja bílinn. Ég var ekki nema 14-15 ára gamall þegar ég var farinn að aka um allt á þessum ríkisbíl. Sem betur fer var ég aldrei tekinn en þetta kostaði einn hund lífið. Ég er mikill hundavinur svo mér fannst þetta afskaplega leiðinlegt.

Þess vegna var Landrover sá bíll sem ég lærði að aka á. Það var erfitt því sætið náði ekki nógu langt fram. Ég er enn mjög lágvaxinn en ég var þá ekki nema um 1,50 metrar á hæð. Ég rétt náði að horfa upp yfir kantinn á rúðunni en til að kúpla varð ég að láta mig renna niður í sætið til að geta stigið þunga kúplinguna í botn. Þá sá ég ekkert lengur. Ekki nóg með það heldur þurfti ég að tvíkúpla til að skipta í flesta gíra sem var list sem ég lærði mjög vel en hef ekki þurft að nota mikið síðan.

Þetta var hin versta bifreið, ef ég á að segja alveg eins og er. Ömurlegt tól, hastur eins og andskotinn, hægfara og drakk bensín eins og ég veit ekki hvað. Það var ómögulegt að aka þessu helvíti! Annað sem Íslendingar þekkja ekki í dag er helvítis rykið af malarvegunum. Það var illskást að ferðast þegar rigndi því þá var ekki rykið.“

Stúdentalífið ljúft


Eftir að suður var komið lauk Ágúst landsprófi frá Laugalækjarskóla og varð síðan stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík með það sem þá var næst hæsta einkunn í sögu skólans. Um haustið var komið að kaflaskilum þegar hann fór út til Þýskalands ásamt Ara bróður sínum og bekkjarbróður þeirra úr MR, Narfa Andréssyni.

„Ari og Narfi ætluðu að læra arkitektúr í Svíþjóð en ég vélaverkfræði í Bretlandi. En Svíar vildu ekki fá Ara eða Narfa og Bretar ekki sjá mig. Umsóknarfrestir í öðrum löndum en Þýskalandi voru runnir út þannig að við ákváðum að sækja um í nógu mörgum háskólum þar. Við sendum á átta skóla þar sem buðu upp á vélaverkfræði og arkitektúr. Fyrsta svarið barst frá Karlsruhe og það var jákvætt, gegn því að við stæðumst þýskupróf. Við ákváðum að taka enga sénsa heldur slógum til og stóðumst allir prófið held ég með ágætum. Við fengum reyndar síðar jákvæð svör frá hinum skólunum.“

Þeir kunnu vel við sig í Karlsruhe. Ágúst segir háskólalífið hafa verið afslappað og þeir vinirnir nýtt svigrúmið í ýmislegt annað en að læra af bókunum, meðal annars ferðalög. „Við gerðum margt sem mínir krakkar hafa ekki haft tíma til að gera. Ég skil að það sé gott fyrir efnahagslífið og sumt fólk að komast fljótt út á vinnumarkaðinn en það þarf líka að skilja að fólkið fer mikils á mis. Fólk nær þessu ekki upp síðar á lífsleiðinni.“

Ari og Narfi fluttu síðan en Ágúst varð eftir, hafði kynnst stelpu sem síðar varð konan hans. Hann hefur mest unnið sem forritari fyrir lyfjafyrirtæki. „Ég hef haft af þessu ljómandi gott lífsviðurværi en ég neita því ekki að þetta er feiknalega óáhugavert starf, í raun og veru drepleiðinlegt. Forritunin er leiðinlegi hlutinn af starfinu, það sem er mest gefandi eru samskipti við fólk, svo sem viðskiptavini. Að öðru leyti nýt ég góðs af náminu með að fást við eðlisfræði sem áhugamál.“

Fer einskis á mis að heiman


Þrátt fyrir að hafa búið í Þýskalandi í 45 ár og hafandi flutt frá Austurlandi fyrir rúmum 50 árum heldur Ágúst enn mjög góðum tengslum við svæðið. Hann kemur þangað reglulega og dvelur í lengri eða skemmri tíma. Í bókahillunni á heimili ytra hans er fjöldi bóka um austfirsk málefni, svo sem Lagarfljótsbók Helga Hallgrímssonar og saga Smára Geirssonar um samstarf austfirskra sveitarfélaga, innan um annan þjóðlegan fróðleik. Hann fylgist líka vel með fréttum að heiman, segir netið hafa verið honum mikil blessun.

„Ég hef aldrei litið á mig sem Þjóðverja eða Þýskaland sem mitt „Heimat“ eins og sagt er. Ég byggi samt ekki hér nema mér liði vel hér, maður getur alveg vanist því að vera hér í 20 stiga hita frekar en tveggja stiga frosti og hríð. En það er erfitt að lýsa sambandinu við heimalandið. Þetta er eins og hjá gæsarungum sem ákveða að mamma þeirra sé það fyrsta sem þeir sjá, sama hvað það er.

Jóhann Gunnar Bjarnason, rithöfundur úr Fellum, skrifaði bók sem hét Eiríkur Hansson. Hún hefst á mjög fjálglegri lýsingu af æsku hans á Fljótsdalshéraði. Hún er eins og töluð út úr mínu hjarta. Þegar ég er á Héraði opnast vitundin einhvern vegin og mér finnst ég vera heima. Tilfinningin um að vera kominn heim hellist hvergi yfir mig annars staðar.

Hann hefur líka lagt til heimahaganna. Fyrir nokkrum árum textaði hann gamla heimildamynd um Austurland á þýsku. Á ludviksson.de eru endurminningar skyldmenna Ágústs sem hann kom á tölvutækt form. Annars vegar frá Árna Jónassyni á Svínaskála, hins vegar Ingvari Pálmasyni. Hann á líka hlut í Austra brugghúsi. „Ég vona að mamma á himnum komist aldrei að því, hún var svo mótfallin áfengisneyslu!“

En þrátt fyrir þessar taugar sér hann vart fyrir sér að flytja alfarið heim. „Fyrst og fremst er það því fjölskyldan mín, börn og barnabörn eru hér. Annars væri draumurinn að skipta búsetunni nokkuð jafnt þótt maður fengi töluvert flugviskubit af því að hegða sér þannig.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.