Matarvagninn á Djúpavogi gerir út á veitingar úr héraði

Berglind Einarsdóttir og Gauti Jóhannesson, sem hafa haldið úti ferðaþjónustufyrirtækinu Adventura, hófu í fyrrasumar rekstur matarvagns í hjarta Djúpavogs. Viðtökurnar í fyrra voru góðar og þau eru aftur komin á stjá.

„Það var orðið dálítið leiðinlegt og áberandi að þegar stærri skemmtiferðaskipin voru að koma hingað þá var fjöldinn svo mikill hér í landi að fólk sem ætlaði sér að fá sér bita á þessum veitingastöðum sem hér eru komust einfaldlega ekki að sökum anna.

Og næstum hvergi var hægt að fá sér þessa hefðbundnu rétti eins og pylsur og ís,“ segir Berglind um aðdraganda þess að þau hófu reksturinn.

En þótt þetta hafi verið hugsunin í byrjun eru það réttir sem sækja í nærumhverfið sem hafa notið mestra vinsælda. Má þar nefna reyktan og kryddaðan lax á brauði en sósur frá Lefever eru líka notaðar til að krydda rétti auk þess sem seldur hefur verið ís sem Sauðagull í Fljótsdal framleiðir.

Þau voru ánægð með viðtökurnar í fyrra og um Hammond-hátíðina var matarvagninn mættur aftur á sinn stað. „Við verðum ekki vör við annað en að fólki líki vel það sem við bjóðum og staðsetningin skemmir ekki, hér við Voginn með frábært útsýni í allar áttir.“

Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.