Helgin á Austurlandi: Kántrístæll í messuhaldi á Eskifirði

Austfirðingar ættu flestir að finna eitthvað skemmtilegt í menningar- og íþróttalífinu í fjórðungnum þessa helgina. Kántrímessa heillar eflaust suma og vafalítið verður fjölmennt á vorsýningu Valkyrjunnar á Vopnafirði. Svo verður líf á Fjarðarheiðinni svo um munar því þar fara fram tveir stórir viðburðir.

Það er séra Benjamín Hrafn Böðvarsson sem ætlar að bjóða upp á öðruvísi messu klukkan 11 í Eskifjarðarkirkju á sunnudaginn kemur. Að prédikun lokinni hefur kirkjukórinn upp raust sína með fulltingi Kaido og hljómsveit og á dagskránni verða íslensk og erlend kántrílög.

„Í grunninn er þetta hefðbundin messa en mig langaði aðeins að breyta út af hefðinni og hafa svona kántríþema þennan sunnudaginn. Ég var með svona poppmessu á Reyðarfirði í síðasta mánuði sem tókst vel og sjálfsagt að prófa aftur með öðru sniði. Ég hafði því samband við nokkra tónlistarmenn hér fyrir austan og það er komin ágæt dagskrá með bæði innlendum og erlendum lögum með kántríívafi. Sú tenging er kannski ekki jafn skrýtin og margir halda því ýmsir sálmar og textar sem fluttir eru reglulega í kirkjum koma upphaflega úr kántrítónlistinni. Þetta er líka hugsað til þess að reyna að breikka þann hóp sem sækir messu því þetta hefðbunda helgihald er ekki allra.“

Mugison á Vopnafirði

Hugsanlega verður kirkjusókn á Vopnafirði meiri en gengur og gerist á sunnudagskvöldið. Þá ætlar listamaðurinn Mugison að troða þar upp en hann setti sér það markmið á árinu að spila í 100 kirkjum landsins í 100 póstnúmerum. Sjálfur kallar hann þetta Tónleika-maraþon og kirkjur hafi orðið fyrir valinu þar sem hann elski að spila á slíkum stöðum. Nú er komið að Vopnafirði en tónleikarnir hefjast klukkan 20 á sunnudagskvöld.

Snokross í Stafdal

Hugsanlega ekki einsdæmi en sannarlega óvenjulegt er að á Fjarðarheiðinni fara fram tveir stórir viðburðir nánast á sama tíma á morgun. Austurfrétt gerði Fjallagöngunni skil í gær en þar etja skíðagöngumenn kappi á brún heiðinnar Egilsstaðamegin. Hinu megin, á skíðasvæðinu í Stafdal, fer jafnframt fram Polaris Snokrossið en þar verður keppt í fjórum mismunandi flokkum. Þessar keppnir ávallt verið vel sóttar enda allir helstu snjósleðakappar landsins að taka þátt auk þess sem byrjendur og börn eiga sína flokka líka. Keppendur mæta 9.30 og hefst keppnin sjálf upp úr því.

Ljósmyndun á gamla mátann

Í Ströndin Stúdíó á morgun fer fram enn einn hluti Ljósmyndadaga á Seyðisfirði en þar ætlar Karen Stentaford að kynna plötuljósmyndun eins og vinsælt var um tíma á nítjándu öld. Það ferli felur í sér að ljómynd er þá framkölluð á sérstakar plötur úr metal og það tekur stuttan tíma. Með öðrum orðum; skyndiljósmyndun þess tíma. Viðburðurinn er utandyra svo fólki er bent á að klæða sig eftir veðri. Karen mun mynda fólk og hópa og sýna þeim ferlið allt frá myndatöku. Viðburðurinn er frír og allir velkomnir eftir hádegið á morgun

Endalaus geimur

Ekki nóg með að Mugison troði upp í Vopnafirði um helgina. Það gera líka dansarar hjá danslistaskólanum Valkyrju sem halda vorsýningu sína í Miklagarði á morgun laugardag og hefst sýningin klukkan 17. Sýningin nefnist Geimurinn endalausi og er miðasala við dyrnar.

Landsbyggðarráðstefna FKA

Félag kvenna í atvinnulífinu heldur stóra landsbyggðarráðstefnu sína í Hallormsstað á morgun laugardag milli 13 og 17 þar sem fjöldi fyrirlesara stígur í pontu og fjallar um ýmis málefni sem snerta þennan stóra hóp. Meginþemað er þó: Ég sem vörumerki. Ráðstefnan öllum konum opin en skráningu lauk þó fyrir rúmri viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.